Skip to main content

það eru nokkur persónueinkenni sem virðast fylgja þeim sem taldir eru afar heilbrigðir einstaklingar (ef þeir eru til á annað borð til)og það er sama hvar mig ber niður hvað þetta málefni varðar þá koma upp sömu atriði aftur og aftur hjá þeim sérfræðingum sem telja sig geta sagt okkur hvað heilbrigði er, og mig langar að deila nokkrum af þessum atriðum með ykkur ef það gæti orðið til gagns.

En hér koma þau atriði sem virðast helst einkenna þá en hugleiðingarnar fyrir neðan koma frá yours truly.

1. Þeir lifa samkvæmt heimsmynd sem þeir telja rétta fyrir líf sitt og lifa samkvæmt þeim gildum sem þeir hafa að leiðarljósi í lífinu. Í raun fara þeir yfirleitt eftir karma lögmálinu, þeir semsagt vilja uppskera gott og vanda sig því við að gera gott.

Eins og við vitum er þetta ekki alltaf auðvelt og öll dettum við í þann pitt að fara aðeins krókaleiðir út frá gildunum okkar, svo ekki skamma þig mikið þó að þessi atriði sem ég tel hér upp séu ekki upp á tíu hjá þér alla daga, það gerir þig ekki óheilbrigða/n, heldur svona smá villta/n – eða eins og börnin mín segja stundum við mig þegar mér finnst Robbie Williams vera á mínum aldri „mamma þú ert bara svolítið aldursvillt“

2. Þeir hafa heilbrigða sýna á sjálfa sig og geta metið styrkleika sína og veikleika ásamt því að þeir hafa stjórn á hegðun sinni og læra af mistökum sínum.

Að hafa rétta sýn á sjálfan sig er svo ótrúlega mikilvægt því að á þeirri sýn byggist tilvera okkar að mestu leiti. Enginn sækir meira frá lífinu en hann telur sig eiga skilið, og enginn sem upplifir sig sem ekki nóg eða of mikið af einhverju sækir fram. Þannig að góð sýn okkar á okkur sjálf skiptir máli – og þá á ég við að við sjáum bæði styrkleika okkar og eins að við viðurkennum annmarka okkar svo að við séum fær um að auka við styrkleikana og draga úr annmörkum okkar á heilbrigðan hátt.

3. Þeir eru opnir fyrir nýjum hugmyndum og eru yfirleitt með þroskaða dómgreind.

Hversu oft er það ekki þannig að við viljum halda okkur inni í boxinu okkar og í raun snúum baki við nýjungum, sjáum þeim í raun allt til foráttu. Ég sá ljósmyndir á fésbókinni þar  sem nýji tíminn og sá gamli var borinn saman, og þá kom til dæmis í ljós að símanotkun úti á strætum er engin nýjung, að vísu var gamla myndin af röð manna á gangstétt að bíða eftir strætó þar sem allir voru með andlitið límt niður í dagblaðið en í dag hneykslumst við mörg á unga fólkinu sem stendur í biðröð eftir strætó með símann upp að andlitinu – sama hegðun, önnur öpp 🙂 Stjórnendur þekkja þetta syndrom vel þegar að breytingastjórnun kemur, það eru alltaf þessir nokkru sem þola illa breytingar og fara í fýlu og mótþróa í stað þess að aðlagast eða fara eftir því nýja sem verið er að innleiða, við þekkjum öll einhvern sem er svona ekki satt?

4. Þeir hafa þroskaða tilfinningagreind og æfa sig í að hafa góða stjórn á tilfinningum sínum.

Í dag er það viðurkennd staðreynd að þeir sem hafa góða tilfinningagreind séu almennt betri starfsmenn, starfsfélagar, maki, foreldri og vinur og þeir eiga auðveldara með að hafa stjórn á tilfinningum í aðstæðum sem er ein af grunnstoðum þess að geta unnið með einstaklinga. Ég er ein af þeim sem tel að ríkisleiðin okkar sem er að enginn fái starf sem ekki sé með háskólapróf upp á vasann sé að takmarka frekar en að bæta þegar litið er til starfsráðninga og framtíðarinnar. Það er til allskonar annarskonar menntun og eins lífsreynsla og áunnin þekking sem nýtist oft ekki síður en sú sem hægt er að læra af bókum – meira að segja góðum bókum eins og Laxness hefði orðað það. Ég velti því fyrir mér hvers vegna þeir sem ætla að starfa með og innan um fólk séu ekki látnir taka og standast tilfinningagreindarpróf áður en þeir fá að útskrifast úr deildum sem lúta að störfum tengdum tilfinningalegri úrvinnslu einstaklinga með einhverjum hætti.

Ég vona svo sannarlega að ég sjái breytingu á þessu fyrirkomulagi sem fyrst því að þeir sem ekki hafa góða tilfinningagreind, góða stjórn á skapi sínu og reynslu af lífinu og aðstæðum þess ættu líklega ekki að vinna með einstaklinga sem hafa brotið hjarta og þurfa skilning á aðstæðum sínum að mínu mati.

5. Þeir hafa góða sjálfsvirðingu og telja sig vera mikilvægan hlekk í þjóðfélagskeðjunni henni til heilla.

Að hafa tilgang er ein af stærri þörfum okkar mannanna og þeir sem hafa hann ekki veslast upp og deyja andlega ef ekki bara bókstaflega fara í gröfina. Þeir einstaklingar hinsvegar sem telja sig vera að vinna heildinni gagn hafa yfirleitt góða sjálfsvirðingu og standa með sér og því sem þeir telja vera rétt gagnvart sjálfum sér og öðrum. Flest teljum við okkur sem betur fer hafa hlutverki að gegna í þessum heimi, hlutverki sem við sinnum síðan eins vel og við getum hverju sinni – þó að okkur bregðist stundum bogalistin þar eins og annarstaðar.

Eins og ég sagði hér að framan er fátt manninum erifðara en það að hafa ekki tilganginn sem felst í því að tilheyra samfélagi annarra. Það þekkja þeir sem eru atvinnulausir, veikir og af einhverjum ástæðum detta út úr samfélaginu. Félagsvísindarannsóknir hafa einnig sýnt að það að tilheyra, fá að reyna á sig andlega og líkamlega ásamt því að finna fyrir kærleika eru allt mikilvægir þættir, þannig að það er erfitt að halda uppi sjálfsvirðingunni þegar þessa þætti vantar inn í tilveruna. En ég get þó sagt við okkur öll að víkka út sjónarhornið okkar því að svo sannarlega er tilgangur fyrir öllu lífi svo skoðum vel í kringum okkur og finnum hvar við erum mikilvæg eða fyrir hvern við erum nauðsynlegur partur af tilverunni.

6. Þeir eiga auðvelt með félagsleg samskipti og eiga auðvelt með að gefa og þiggja.

Það fallegasta við mannlífið að mínu mati er hæfileiki okkar til að gleðjast saman og máltækið „maður er manns gaman“ finnst mér eiga vel við þá sem elska félagsleg samskipti þar sem þegið er og gefið af örlátu glöðu hjarta af beggja hálfu. Það er ein fallegasta athöfn sem við getum nýtt til að gefa af kærleika okkar til mannlífsins og heildarinnar. Svo er líka fátt eins skemmtilegt og það að kynnast nýju fólki og menningu sem getur bætt við þekkingu okkar og sýn á mannlega tilveru og menningu.

7. Þeir nálgast málefnin með raunsæjum hætti og láta ekki ímyndaðar áhyggjur draga sig niður.

Að skoða hvort áhyggjur okkar stöðvi tímann eða breyti niðurstöðum með einhverjum hætti er okkur hollt og gott. Áhyggjur hafa aldrei að mínu viti orðið til þess að bæta stöðuna sem áhyggjurnar snúa að, en hinsvegar lama áhyggjurnar okkur stundum og verða til þess að við grípum ekki til aðgerða sem við þyrftum stundum að framkvæma í aðstæðum lífsins. Og svo ég tali bara fyrir mig þá hef ég aldrei vitað til þess að óþarfa áhyggjur mínar af fólki eða aðstæðum hafi breytt neinu nema minni eigin líðan. Notum rökin sem leynast þarna einhverstaðar og spyrjum okkur hvort áhyggjurnar muni breyta einhverju um niðurstöðu málefnisins sem við erum að eiga við hverju sinni og ef við finnum að þær gætu breytt aðstæðunum með einhverjum hætti breytum þeim þá – en ef ekki sleppum þeim þá bara.

8. Þeir hafa sjálfstæða hugsun og taka sjálfstæðar ákvarðanir og vita hvenær rétt er að fara inn í eða út úr aðstæðum. 

Við erum held ég afar meðvirk þjóð og hugsum allt of mikið um það hvað náungi okkar segir eða heldur (kannski vegna þess að við erum svo fá) og við tökum oft „rangar“ ákvarðanir fyrir líf okkar út frá því sem okkur er sagt að sé okkur fyrir bestu. Þeir sem heilbrigðastir teljast nota sjálfsgagnrýni til að bæta sig en stjórnast ekki af áliti annarra né gagnrýni því að þeir vita hvers vegna þeir eru að fara þá leið sem þeir velja og þeir bera ábyrgð á útkomunni sjálfir.

Að hlusta á hjarta sitt og höfuð og fylgja því sem við finnum þar er oftast heillavænlegast en því miður veit ég að allt of margir eru ekki að hlusta og haldast því inni í ómögulegum aðstæðum sem veikja þá og valda þeim einungis óhamingju. Eins veit ég að margir láta ekki reyna á hvort að draumar þeirra geti orðið að veruleika því að hvað gæti náunginn gæti haldið um þá! Þetta held ég svei mér þá stundum að sé gamall þjóðarsjúkdómur, því að það er auðvitað bara montið og athyglissjúkt fólk sem eltir drauma sína. Það var a.m.k það sem ég heyrði oft í kringum mig í mínum uppvexti. Þeir sem ríkir urðu voru ýmist heppnir, fæddust með gullskeiðina í munninum eða þá að þeir voru kræfustu þjófar. Sjaldan heyrði ég talað um að þeir hefðu komist áfram á eigin rammleika né var talað um hversu mörg högg og hafnanir þeir höfðu upplifað á leið sinni að árangri.

9. Þeir hegða sér á yfirvegaðan hátt og tjá tilfinningar sínar á fallegan hátt.

Það er fátt leiðinlegra en það að mæta einstaklingum sem hafa litla stjórn á hegðun sinni eða tilfinningum og nota rifrildi og ljót orð til að ná sínu fram, en samt er þetta allt of algeng aðferð okkar mannfólksins. En þeir sem telja sig þurfa að tjá sig með ljótu orðskrúði og látum hafa ekki grætt mikið á þannig framkomu hvorki fyrr né síðar – þeir gætu þó reyndar grætt óvildamenn og að þeim yrði haldið fyrir utan líf þeirra sem þeim líklega þykir þó vænst um (ef hægt er að kalla það gróða) – svo pössum okkur á ljótu orðunum – aðgát skal hafa í nærveru sálar.

10. Þeir sýna djörfung í aðstæðum og taka bakslögum af yfirvegun og sýna þrautsegju.

Aðal innihaldsefni árangurs og þess að láta drauma sína rætast að mínu viti er að gefast ekki upp þó á móti blási. Standa upp aftur og aftur þrátt fyrir hafnanir, peningaleysi, baknag og aðra erfiðleika. Og þrautsegja er nauðsynlegt verkfæri í þessu lífi okkar sem oft á tíðum reynist okkur alls ekki auðvelt og það er svo sjaldan sem við fáum svona drive through lausnir á málum okkar. Þannig að ekki gefast upp hvar sem þú ert stödd/staddur – það er alltaf ein lausn eftir – sýnum þrautsegju!

11. Þeir eru stundvísir og standa við loforð sín.

Jeddúdda mía hvað ég get orðið pirruð á óstundvísi og því þegar ekki er borin virðing fyrir tíma mínum. Eins á ég afar erfitt með svikin loforð og planleggingar sem standast ekki. Þannig held ég reyndar að við séum flest. Við viljum láta bera virðingu fyrir þessum þáttum þegar þeir snúa að okkur, þannig að sýnum öðrum bara það sem við viljum að okkur sé sýnt í þessum atriðum sem og öðrum.

12. Þeir hafa yfirleitt mörg áhugamál sem veita þeim gleði og ánægju í lífinu og jafnvægi á vinnu og hvíld er ríkjandi í lífum þeirra ásamt heilbrigðu matarræði og hreyfingu.

jafnvægi er okkur mjög mikilvægt og við sækjum í ýmsilegt sem veitir okkur það. Þeir sem stunda hugleiðslu, jóga, kirkjur og allskonar aðferðir til að ná hugarró ættu kannski stundum að huga að því að hafa jafnvægi á öllum þáttum lífs síns á sama tíma, því að ef ekki ríkir þetta jafnvægi eða 8-8-8 aðferðin (vinna, hvíld og tómstundir)fara flestir ef ekki allir að finna fyrir streitueinkennum fyrr eða síðar.

Týpískur dagur hjá fjölskyldum í dag er að vakna fyrir allar aldir, klæða börnin í skóla eða leikskóla, koma sér í vinnu sem tekur amk 8 tíma, ná í börnin og skutla þeim í tómstundir, versla, fara í ræktina, láta börnin læra, elda mat, koma börnunum í háttinn og svo detta foreldrarnir örþreyttir niður fyrir framan sjónvarp eða tölvu þegar þau sofna eða þá að þau fara og stunda þau sport sem ekki var tími fyrir fyrr að deginum. Um helgar er síðan farið í ærandi verslunarmiðstöðvar og skemmtigarða sem auka á streituna bæði hjá þeim yngri og hinum eldri. Það sér hver heilvita maður að svona getur lífið ekki gengið upp til lengdar. Svo jafnvægi á öllum þáttum lífsins er málið -8,8,8. og borða svo rétt krakkar!

Jæja elskurnar, þetta eru nokkrir af þeim þáttum sem hinir heilbrigðu virðast hafa til að bera, og ég held að okkur sé alveg óhætt að gera það að markmiði okkar að halda okkur nokkuð nálægt þessum atriðum til að líf okkar sé í jafnvægi og til að okkur geti liðið vel með okkur sjálf og umhverfi okkar.

Þar til næst

xoxo

Ykkar Linda

Pin It on Pinterest

Share This