Við konur sem komnar erum á mjög svo virðulegan aldur þekkjum margar hversu margt breytist hjá okkur þegar við förum á þetta svokallað „breytingaskeið kvenna“ og ég segi fyrir mig að þetta ferli reyndist mér alveg skelfilega erfitt en sem betur fer er það misjafnt á milli kvenna hversu mörg og erfið einkenni þær fá..
Oft finnst mér gert lítið úr þessu tímabili og því miður er almenn þekking á því frekar þunn ennþá þó svo að það hafi kannski lagast heilmikið á síðasta áratug eða svo.
Þetta skeið okkar kvenna var allt saman sveipað dulúð fram á okkar tíma og ekki mátti tala um það nema í hálfum hljóðum. Samt erum við konur að finna allskonar einkenni sem hafa oft mikil áhrif á daglegt líf okkar, heilsu og líðan að ég tali ekki um þær breytingar sem verða á högum okkar margra í lífinu einnig á þessu sama tímabili. Börnin fara að heiman og barnabörn fæðast, möguleikar okkar kvenna á vinnumarkaði fara mjög dvínandi og nánast er vonlaust fyrir konur yfir fimmtugt að fá vinnu í dag virðist vera.
Mér þykir það mjög miður fyrir atvinnulífið,landið og heiminn allan, því að kraftur unga fólksins og reynsla hinna fullorðnu þurfa að haldast í hendur svo hægt sé að byggja upp heilbrigða þjóð og jafnvægi, þjóð sem skapar með þeim hætti góð skilyrði fyrir komandi kynslóðir.
En aftur að breytingaskeiðinu og minni líðan á meðan á því versta stóð (Skilst reyndar að þetta taki allt í allt um 20 ár).
Fyrir það fyrsta þá fann ég hvernig orka mín minnkaði á þessu tímabili og hvernig svefn minn flaug vængjaður út í buskann eða ég veit allavega ekki hvað varð af þessari svefnpurku sem ég var vön að vera á árum áður! Og þegar ég svo loksins náði að sofna þá var það eins og við manninn mælt að ég bókstaflega flaut úr úr rúminu í svitabaði nótt eftir nótt í nokkur ár. Venjulega erum við nú nógu ósmart svona nývöknuð en þetta tók út yfir allt og hafi ég einhvern tímann litið út eins og fuglahræða þá var það á þessum árum, blaut og úfin alla morgna í heila eilífð að mér fannst.
Og ekki nóg með svitaböð og svefnleysi heldur fór taugakerfið einnig í rúst. Ég held að ég hafi aldrei upplifað svona miklar breytingar á geðheilsu minni og urðu á þessum tíma.
Það er nú stundum gert grín að því að konur hafi tíu persónuleika, og já á þessum tíma var því þannig háttað með mig! Ekki var það þó þannig að ég gæti bara valið hvern sem ég vildi af þessum tíu, því að þeir létu einfaldlega illa að stjórn og það var aldrei að vita hverjum þú mættir hverju sinni.
Ég hef t.d aldrei upplifað fyrr né síðar að finna hvernig tilfinning eins og kvíði er beintengdur líkamanum og utan við sálina, og það var rosalega skrítin tilfinning að finna að þetta hafði ekkert með mig og mínar tilfinningar að gera heldur líkama minn!
Blæðingar urðu óstabílar í töluvert langan tíma og fyrirtækin sem framleiddu þungunarpróf græddu helling á viðskiptum mínum á þessum tíma, því að ég var skíthrædd oft á tíðum um að nú væri ég hreinlega orðin ófrísk og það var ég ekki til í á þessum aldri.
Það sem mér fannst þó verst var að mæta skilningsleysinu sem ég upplifði þegar ég leitaði læknisaðstoðar vegna kvíðans og allra þessara ómögulegu einkenna. Það voru allar hugsanlegar ástæður taldar til nema breytingaskeiðið sjálft (Sem var þó orsökin).
Það eru afar mismunandi einkenni sem fylgja þessum breytingum og einnig mismunandi hvort eða hvaða einkenni konur finna, en ég ætla svona til fróðleiks að telja upp nokkur þeirra hér þó að ég kannist ekki við þau öll sjálf.
Einkennin sem oftast eru talin upp eru t.d þunglyndi, kvíði, höfuðverkur, minnistruflanir, pirringur og óþolinmæði, hárið getur orðið leiðinlegt og blæðingar frá tanngómum geta átt sér stað. Þurrkur í kynfærum og óþægindi við samfarir eru algeng,og sviði við kynfæri og þvagrás eru það einnig.
Hárvöxtur í andliti eykst til muna okkur konum til mikils ama og leiðinda, og líklega eru mörg önnur einkenni sem fylgja þessum hormónasveiflum þó að þau séu ekki talin upp hér.
Síðan eru sjúkdómar sem við þurfum að passa okkur á og vera á varðbergi gagnvart, sjúkdómar eins og beinþynning og ýmsir hjartasjúkdómar láta oft á sér kræla á þessu tímabili og því þarf að huga extra vel að heilsunni.
En aftur að minni upplifun á þessu blessaða breytingaskeiði.
Árin liðu og einkennin dvínuðu en mér til mikillar furðu varð einnig ávinningur af þessu öllu saman.
Nú þekki ég t.d mun fleiri hliðar á persónu minni (allar tíu), er sterkari og veit betur hvað ég vill.(ætli það séu karlhormónarnir sem valda því?) Ég þekki líkamleg og sálarleg viðbrögð mín betur og ég veit einnig að ég get farið nánast í gegnum hvaða dal sem ég þarf að ganga í gegnum fyrst ég komst upp úr þessum.
Sjálfstraust mitt óx einnig verulega með öllu því góða sem því fylgir að treysta sjálfum sér og svona get ég haldið áfram, semsagt ávextirnir af óþægindunum urðu góðir.
Sumar okkar eru reyndar afar heppnar og finna vart fyrir einkennum þessa skeiðs og fljúga í gegnum þetta steinhissa á vælinu í vinkonum sínum, en þær sem fá alvarleg einkenni hafa sem betur fer í dag möguleika á allskonar hormónameðferðum sem ég því miður gat ekki nýtt mér. En elskurnar mínar ég hvet ykkur svo sannarlega til að nota þau úrræði sem í boði eru ef það gæti gefið ykkur bætta líðan og betri heilsu.
Ég vona að þessi upptalning mín og örlitla reynslusaga geti orðið þeim sem lesa að gagni, og ég vona að hún auki skilning þeirra sem eru í kringum konur sem staddar eru á stað flókins líkamlegs og sálarlegs ferlis sem ekkert grín er að fara í gegnum – og ég vona að þær fái stuðning og kærleika sem aldrei fyrr frá þeim sem elska þær.
Ég þykist vita að sá stuðningur, ásamt dassi af kærleika og uppbyggingu séu meðölin sem gætu hugsanlega stytt þetta ferli eða a.m.k gert það mun bærilegra.
Xoxo
Ykkar Linda