Skip to main content

Ég ákvað að það væri full þörf á því að taka þennan gamla pistil minn fram núna þar sem við notum samfélagsmiðlana sem aldrei fyrr og hafi einhverntíman verið þörf fyrir þennan pistil þá er það líklega núna.

Þeir sem þekkja mig vita að Facebook er í miklu uppáhaldi hjá mér og sumum finnst nú nóg um samskipti mín á þeim miðli.

Þó að ég sé mikill aðdáandi þessarar síðu þá sé ég nú samt að hún getur haft hliðar sem eru ekki svo skemmtilegar né góðar.

Það eru að verða nokkuð mörg dæmin þar sem ég hef persónulega heyrt um „framhjáhöld á Facebook“ eða hvaða nafni við viljum nefna það þegar makinn er farinn að daðra við persónu á netinu, persónu sem jafnvel er ekki með skráða tilvist þegar upp er staðið.

Hvort sem persónan er raunveruleg eða ekki, þá er þetta netheimadaður eitthvað sem er að setja mörg annars mjög  góð sambönd í hættu.

Það er svo auðvelt í dag að koma sér í samskipti við fólk af báðum kynjum ef viljinn er fyrir hendi og hefur líklega aldrei verið jafn auðvelt að krækja sér í daður og dufl eins og það er í dag.

Í netdaðrinu fara af stað samskipti með spjalli sem fljótlega eru komin á mjög grá svæði og stundum farin út í erótísk samtöl sem veita  kynferðislega örvun annars eða beggja aðila og geta hæglega orðið að einhverju meiru.

Í  mínum huga er það kristaltært, daður og erótík á netinu hjá þeim sem í samböndum eru flokkast í mínum kolli undir „framhjáhald“ og ekkert annað. Óræðar setningar, pot , tvíræð hrós og fleiri samskipti við hitt kynið sem ekki geta komið fyrir sjónir makans eru aldrei ásættanleg eða í lagi hvort sem þau eiga sér stað á milli bæjarhluta landshluta eða landa. Framhjáhald heitir það hvað sem við annars viljum kalla það.

Það eru of mörg sambönd í dag sem lituð eru af vantrausti og ójafnvægi vegna rafrænna samskipta makans við „annan“ aðila en makann og skiljanlega fer traustið veg allrar veraldar þegar upp um svona samskipti kemst. Og auðvitað er þetta eitthvað sem alls ekki á að eiga sér stað.

Traustið er grunnurinn að góðu sambandi og er það mikilvægasta sem samband tveggja einstaklinga byggist á, þar er ekki rúm fyrir þriðja aðila. Ef traustið er einu sinni brotið er oft erfitt að vinna það að nýju og grunnurinn að sambandinu þar með farinn veg allrar veraldar.

En hvað veldur því að okkur finnast þessi samskipti í dag „saklaus“ og í raun ekki vera neitt til að vera að gera veður útaf?

Ég held stundum að við séum farin að svæfa siðferðiskennd okkar all verulega og séum farin að vinna okkur sjálfum og lífi okkar tjón með því að líta á margt sem lífið í dag býður uppá sem „saklaust“ og kannski bara „normalt“ sem það er alls ekki þegar upp er staðið.

Í þessum efnum eins og svo mörgum öðrum getur sáning af þessum toga aldrei gefið þá uppskeru sem við óskum eftir að fá út úr samböndum okkar og í raun eyðileggja svona samskipti  eingöngu uppskeruna og minnka þar með lífsgæði okkar og vellíðan.

Hjónabönd í rúst og fjölskyldur sundrast. Það sem búið var að byggja upp farið vegna einhvers sem kannski skipti engu máli eða var nánast ekki neitt nema tilfallandi spenna og kikk inn í hversdagslífið.

En hvað með þá einhleypu og netdaðrið ?

Þar virðist vera mjög algengt að spjallað sé við marga aðila í einu svona rétt til að vera on the safe side á meðan verið er að mynda nýtt samband við einn ákveðinn aðila og Það þarf að hafa nokkra aðra aðila til vara ef myndun á þessu nýja sambandi bregst. Það mun aldrei vera til góðs fyrir sambandið því get ég lofað.

Þarna að traustið er farið áður en að sambandið getur myndað þau bönd sem nauðsynleg eru til að tvær mannverur séu tilbúnar að gefa af sér og þiggja – sambandið getur því aldrei byggst upp á réttum forsendum að mínu mati.

Ég veit að margir munu ekki vera sammála mér í þessum efnum sem er í lagi eins og fyrri daginn. Og má vera að ég sé nokkuð dómhörð í þessum efnum en sú dómharka mín byggist á því að hafa fengið of oft að heyra af málum þessum og afleiðingum þeim sem þau hafa haft.

Klámið kemur reyndar jafn sterkt inn og daðrið þegar kemur að því að það hrikti í stoðum sambanda, og er í raun oft fylgifiskur þessa netdaðurs sem á sér auðvitað stað víðar en á Facebook.

Við höfum stefnumótasíður af ýmsum gerðum og þeir sem á annað borð vilja og nenna að standa í framhjáhöldum af þessum toga nota líklega flesta þessa miðla til jafns við facebook. Ef við googlum orðið „sex“ koma upp 3.620.000.000 niðurstöður á 0,55 sekúndumþannig að netið er gósenland fyrir þá sem vilja finna sér klám erótískt spjall og allt það sem hugurinn girnist hverju sinni til að upplifa spennu af þessu tagi.

En framhjáhald er þetta allt saman og ekkert af því saklaust eða í lagi. Skemmandi og eyðandi eru þau ef upp um þau kemst, og jafnvel þó að ekki komist upp um þau þá eru þau skemmandi fyrir einstaklingana sem í þeim standa. Siðferðiskenndin slævist og samviskubit ásamt sjálfsfyrirlitningu eru afleiðingin fyrir þann sem þetta stundar og það er held ég eitthvað sem enginn vill í raun uppskera fyrir líf sitt.

Gróðinn eða uppskeran er semsagt léleg  fyrir þá sem ætluðu sér spennu og  vellíðan með Facebook framhjáhaldinu.

Svo vöndum okkur þegar við erum í traustu og góðu sambandi og þegar við erum að mynda nýtt samband. Skoðum vel hvað það er sem við viljum uppskera í lífi okkar og sáum i samræmi við það í þessum efnum sem öðrum.

Gömlu og góðu gildin eiga enn rétt á sér og lögmál eins og það að aðgát skuli hafa í nærveru sálar einnig.

Veljum að nota netmiðlana til uppbyggingar á heilbrigðum og fallegum samskiptum okkur sjálfum til góðs sem og öðrum, en sleppum að næra og vökva arfann sem fljótur er að yfirtaka það góða í garðinum okkar.

Þar til næst elskurnar.

Xoxo
Ykkar Linda

Pin It on Pinterest

Share This