Skip to main content

Ég veit fátt verra en meðvirkni innan parasambanda og kannski í öllum samskiptum manna á milli. Því ákvað ég að setja niður nokkra punkta sem ég hef verið minnt á og hef upplifað sjálf í mínu meðvirknibrölti í gegnum tíðina og ákvað að safna saman nokkrum punktum úr ýmsum áttum sem hjálpuðu mér á sínum tíma við að komast frá þeim stað. Það eru mun fleiri atriði sem hægt væri að tína til, en ég ætla að láta þessi örfáu atriði duga að þessu sinni.

Þú gætir auðveldlega verið meðvirkur í sambandinu þínu og verið í óheilbrigðum samskiptum innan þess ef þú:

  • Ert óhamingjusamur í sambandinu en hræðist hinn valkostinn sem er að fara út úr sambandinu og hefja nýtt líf.
  • Upplifir þig sífellt vera að ganga á eggjaskurni til að styggja ekki maka þinn.
  • Vanrækir þínar eigin þarfir fyrir þeirra þarfir.
  • Vanrækir vini þína og fjölskyldu til að geðjast maka þínum.
  • Sækist eftir samþykki maka þíns.
  • Gagnrýnir þig í gegnum linsu makans og hunsar þitt eigið innsæi.
  • Fórnar miklu til að geðjast maka þínum án þess að það sé nokkuð metið né endurgoldið.
  • Kýst frekar að búa við þetta ófremdarástand í stað þess að vera einn.
  • Bítur í tungu þína og bælir niður þínar eigin tilfinningar (veist kannski ekki heldur hvernig þér líður – þekkir ekki eigin tilfinningar) til þess eins að halda friðinn.
  • Finnur þig ábyrgan fyrir óæskilegri hegðun maka þíns og tekur jafnvel á þig sök vegna einhvers sem makinn gerir af sér.
  • Ferð í vörn þegar aðrir tala um það sem er að gerast í sambandinu þínu.
  • Reynir að bjarga makanum frá sjálfum sér.
  • Finnur til samviskubits þegar þú stendur upp fyrir þér og þínum.
  • Heldur að þú eigir þessa meðferð skilið (jafnvel vegna fyrri mistaka í lífinu)
  • Trúir að enginn annar/önnur vilji þig.
  • Þegar þú lætur blekkjast af samviskubitinu sem sett er á þig þegar maki þinn segir við þig að hann geti ekki lifað án þín, þannig að þú kemur þér ekki út úr sambandinu. (ofbeldishringurinn í sumum tilfellum).
  • Þegar þú rökræðir við manneskju sem er ýmist í hlutverki Dr Jekyll eða Mr Hyde en veist að það mun ekki þýða vegna þess að það gilda engin venjuleg rök þar.
  • Þegar þú veist að þú munt ekki fá lagfæringar á þeim atriðum sem þú sækist eftir vegna þess að það var aldrei inn í mynd hins aðilans sem þó telur þér trú um að svo sé á meðan verið er að hala þér aftur inn í sambandið þegar þú vilt út.
  • Þú lendir á einum af 4 hestamönnum Gottmans eða útásetningum, fyrirlitningu, vörn og steinveggjum/þögn, og þú lætur það viðgangast.
  • Þegar þú setur upp þau mörk sem þú vilt fyrir þitt líf en stendur ekki við þau.

Þetta eru örfá af mörgum atriðum sem geta bent í áttina til meðvirkni þinnar innan sambands og samskipta, og ef þú finnur að þessi atriði eiga við þig taktu þau þá alvarlega og fáðu aðstoð við að vinna á þeim.

Og að lokum gildir gamla máltækið alltaf vel sem segir “betra er autt rúm en illa skipað”

Meðvirkni er dauðans alvara og Lífið er allt of stutt til að verja því með þeim sem bera ekki virðingu fyrir þér eða koma ekki vel fram. Yfirgefðu slíkar aðstæður því það opnast alltaf aðrar dyr, en passaðu uppá að þær dyr innihaldi það sem þú vilt fá inn í líf þitt.

Og ef þú þarft á minni aðstoð að við að takast á við þín lífsins málefni og kannski meðvirkni þá er ég aðeins einni tímapöntun í burtu eins og alltaf.

Þar til næst elskurnar,

xoxo

ykkar Linda

Pin It on Pinterest

Share This