Skip to main content

Ég hef skrifað töluvert um andlegt ofbeldi, narsissma og fleira sem tengist veikum samskiptum í gegnum tíðina en uppgötvaði um daginn að ég hef lítið fjallað um birtingamynd kynlífsins í þeim samskiptum. 

Ég ákvað þess vegna að afla mér upplýsinga hér og þar og langaði einnig að kanna hvort það væri til eitthvað sem héti kynferðislegur narsissmi.

Og viti menn – já það er svo sannarlega til!

Eins og alltaf bendi ég á að við erum ekki alltaf að eiga við persónuleikaröskunina sjálfa í allri sinni mynd og kannski erum við öll með einhver einkenni raskana, svo að við skulum vera varkár í því að dæma alla sem passa við eitthvað af eftirtöldu sem NPD (Narsissta)

En jafnt á kynlífssviðinu sem og öðrum sviðum sýnir sá sem hefur narsisska eiginleika yfirburði sína og blæs í leiðinni upp hæfileika sína og getu.

Þeir vilja að sjálfsögðu stjórna í rúminu og þeir úthluta kynlífi eða skorti á því eftir því hvernig liggur á þeim og að eigin vild. Við skulum samt gera okkur grein fyrir því að þeir eiga alltaf rétt á kynlífi óháð löngun makans.

Það er algengt að þeir noti sjarma sinn, peninga eða völd til að fá kynlíf og þeim finnst þeir eiga rétt á því í eða utan rómantísks sambands. Þeir krefjast þess að vera ofhlaðnir lofi fyrir bólfimi sína eins og áður er getið og nærast í raun á því, en hafa hinsvegar litla samkennd með þeim sem verða fyrir svikum þeirra, framhjáhaldi og lygum.

Og þó að þeir vilji fá lof fyrir bólfimi sína er þeim slétt sama um þarfir mótaðilans og taka lítið tillit til þeirra.

Þeim er einnig sama hvort hegðun þeirra valdi bólfélaga þeirra sársauka og í sumum tilfellum eru þeir líklegri en margur annar til þess að vera árásargjarnir á kynferðissviðinu.

Þannig að einnig á þessu nána sviði koma í ljós þær hliðar sem þeir eru þekktastir fyrir, eða eigingirnin, sjálfselskan, samkenndarleysið og kannski bara almenn grimmd gagnvart fólki.

Og ef þú heldur að þú gætir verið í sambandi við kynferðislegan narsissta skaltu taka eftir einhverjum af eftirtöldum atriðum:

Er þitt hlutverk að fullnægja hans þörfum? Skiptir það hann máli að þú hrósir honum fyrir frammistöðu hans og blásir upp sjálfsmynd hans með því móti?

Er makinn heillandi og ástríkur þegar hann vill fá kynlíf en hunsar þig og þínar þarfir þess á milli?

Ef þú neitar kynlífi kostar það þig refsingu með einhverjum hætti?

Færðu að heyra að það skorti eitthvað upp á i bólfiminni þinni að hans mati?

Færðu tilfinningalega nánd og kynferðislega ánægju út úr sambandinu ykkar? Við eigum öll rétt á því, og við skulum ekki gleyma því.

Var fyrsta stig sambandsins algjört æði og þér fannst þú heppnasta manneskja í heiminum?

Til að byrja með eru þessir aðilar í stöðugu sambandi við þig og þú ert alveg gjörsamlega dásamleg vera, líklega engillinn sem þeir hafa beðið eftir að finna. En fljótlega reyna þeir á mörkin þín með því að segja eða gera eitthvað sem særir þig svona pínu pons einungis til að athuga viðbrögð þín við því áreiti.

Ef þú gerir ekkert og setur ekki mörk á hegðun hans þá heldur hann áfram og gengur smá saman lengra og lengra.

Smá saman verður þú að sjálfsagðri eign þeirra og þá getur þú átt von á alls konar niðurlægjandi orðum og athöfnum jafnvel í návist annarra. Ef þú kvartar þá draga þeir úr orðum sínum, afneita þeim eða ásaka þig um móðursýki.

Orðin þeirra í upphafi eru smjaðursleg og eru einfaldlega óheilbrigð „love bombing“ orðabelgur en það verður fljótt að breytast í andstæðu sína!

Kynlífið verður algjörlega frábært í byrjun, en þegar þú ert ekki tilbúin/n til að mæta öllum þeirra kynferðislegu óskum færðu á þig ásökun um stjórnsemi og hann hikar ekki við að gagnrýna þig fyrir það í návist vina og kunningja, og líklega verður líkami þinn og holdarfar einnig gagnrýnt með tilheyrandi skammartilfinningu sem verður til hjá þér.

Svona framkoma er mjög niðurlægjandi og særandi og eftir því sem tíminn líður án þess að þú standir á mörkum þínum gagnvart framkomunni þá verða ummælin grófari og persónulegri og þú ferð alltaf lengra og lengra frá sjálfum þér og mörkunum þínum, og að lokum brotnar sjálfsmyndin þín í þúsund mola.

Þú ert ekki líklega ekki manneskja í augum þeirra heldur eins og hver önnur eign þeirra sem átt bara að hlýða og uppfylla langanir þeirra.

Þeir munu yfirleitt tala af mikilli vanvirðingu um kynsystur þínar(eða bræður).

Þeir verða einnig mjög afbrýðisamir með tímanum og vilja vita allt um fyrri bólfélaga þína og vita hvernig þau sambönd voru, til þess eins að byggja upp afbrýðisemi sína, og til að nota upplýsingarnar sem þú gefur þeim á þig seinna. Þegar þú hefur opnað allt þitt einkalíf upp á gátt fyrir þeim þá nota þeir það gegn þér og þú líklega kölluð „drusla“ eða eitthvað verra.

Þú færð að heyra að þú viljir vera sexý til þess eins að reyna við allt og alla og þú ert daðrari af Guðs náð sama hvernig fatnaði þú klæðist eða hversu ópersónuleg þú ert í samskiptum þínum. Þeir munu einnig hafa tilhneigingu til þess að ásaka þig um framhjáhald þó að engin ástæða sé til fyrir því.

Ef þeir sýna þér dónaskap þá áttir þú það skilið eða þú baðst um það með hegðun þinni.

Afbrýðisemin getur náð til barna og gæludýra og í raun til alls sem fangar athygli þína, því að þeir ætlast til þess að eiga athygli þína óskipta.

Þvingunaraðferðirnar sem þeir beita eru áreitni, sektarkennd, skömm, sekt eða reiði.

Þeir hóta framhjáhaldi ef þú lætur ekki undan þeirra löngunum eða ef þú breytir útliti þínu á einhvern hátt án samþykkis þeirra.

Og til að einangra þig frá vinum/vinkonum gætu þeir talað opinskátt eða grínast með það að þeir laðist að þeim kynferðislega.

Á næsta stigi sambandsins er aldrei nóg af kynlífi eða stellingum þar.

Þegar þú mótmælir, er hlegið að þér fyrir þína afstöðu og allar aðferðir fyrsta stigsins notaðar þar til þú lætur undan þeim.

Með tímanum,þ.e. ef þú ferð ekki út úr sambandinu ferðu að lúta óæskilegum kynferðislegum athöfnum af ótta við að ofbeldi verði beitt, að hann yfirgefi þig, niðurlægi, refsi, svíki þig eða að hann haldi frá þér fjármunum.

Eigingjarnt kynlíf er óvarið kynlíf og vegna þess að samfarirnar snúast um það hvernig honum  líður, neitar hann að nota smokka og krefst þess að þú takir fulla ábyrgð á öllum vörnum og varúðarráðstöfunum.

Sumir narsissistar draga algjörlega allt kynlíf út úr sambandinu og ef þú leitar eftir því er því mætt með háði og ljótum orðum um frammistöðu þína sem veldur auðvitað bindindi hans. Þeir munu einnig sveiflast á milli óhóflegs kynlífs og þess að draga sig í hlé til þess eins að viðhalda stjórn á þér.

Kynferðislegur narsissmi er ekki persónuleikaröskun né geðheilbrigðisástand. Þess í stað vísar það til eiginleika sjálfsmyndarinnar sem koma aðeins fram í kynferðislegri hegðun.

Eins og ég lagði áherslu á hér í upphafi þá er mikilvægt að muna að ekki eru allir sem sýna þessa eiginleika með persónuleikaröskunina NPD (Narcissistic personality disorder). Fólk getur haft ýmis persónueinkenni og dansa á jaðri persónuleikaraskana án þess að hægt sé að greina það og flokka í röskunarhópa. Það er einnig nauðsynlegt að íhuga almennt að því hvernig  sambandið gengur fyrir sig og hvort hegðun makans sé stöðugt í takt við narsissísk mynstur.

Ef þig hinsvegar grunar að þú sért í sambandi við narsissista eða upplifir að þú sért beitt/ur misnotkun eða illri meðferð skaltu íhuga að leita eftir stuðningi frá meðferðaraðila eða ráðgjafa sem getur hjálpað þér að sjá og skilja stöðu þína.

En er hægt að lækna hegðun af þessum toga?

Eins og er skilst mér að það sé engin læknisfræðileg meðferð eða lyf til sem geta læknað narsissíska eiginleika eða kynferðislegan narsissma,hins vegar getur sálfræðimeðferð verið gagnleg að einhverju leiti og gert fólki kleift að skilja hegðun sína, stjórna tilfinningum sínum og taka ábyrgð á gjörðum sínum. Það getur líka hjálpað þeim að byggja upp betra sjálfsálit og heilbrigðari sambönd.

En hvaða tilfinningalegu og heilsufarslegu afleiðingu getur það haft fyrir þig að vera inni í sambandi af þessum toga?

Að takast á við stöðugar óheilbrigðar kröfur getur leitt til mikillar streitu og kvíða.

Að vera í sambandi við aðila sem setur þessar kröfur á þig getur stuðlað að depurð og vonleysi,sem hugsanlega getur leitt til þunglyndis á endanum.

Þegar stöðugt er verið að grafa undan sjálfsvirðingu þinni með gagnrýni og aðferðum sem rústa sjálfsmyndinni fer sjálfstraustið og sjálfsvirðingin að lokum veg allrar veraldar.

Ef einangrun frá vinum og fjölskyldu er til staðar vegna sambandsins og stuðningsnetið þannig tekið frá þér getur það leitt til einmanaleikatilfinningar og að þér finnist þú vera Palli einn í heiminum með tilheyrandi vanmætti og sorg.

Langvarandi streita og tilfinningaleg vanlíðan getur haft líkamlegar heilsufarslegar afleiðingar eins og veikt ónæmiskerfi, svefntruflanir, hjartavandamál og aukna hættu á ýmsum öðrum kvillum og sjúkdómum.

Einstaklingar sem eru í óheilbrigðum samböndum geta snúið sér að deyfingum af ýmsum toga til að þola ástandið, eins og t.d ofdrykkju, vímuefnaneyslu og fleira.

Í alvarlegum tilfellum andlegrar og líkamlegrar misnotkunar geta einstaklingar fengið einkenni PTSD (áfallastreitu) vegna viðvarandi tilfinningalegra og sálrænna áfalla.

Það er mikilvægt að forgangsraða eigin vellíðan (Elska sjálfan sig) og leita eftir stuðningi þegar við erum í vanlíðan því að við eigum bara þetta stutta líf og ættum að lifa því sem mest í vellíðan.

Meðferð eða ráðgjöf getur verið gagnleg til að koma sér á betri staði sambandslega séð og í sumum tilfellum getur verið nauðsynlegt að íhuga að slíta sambandinu til að vernda heilsu þína og vellíðan.

Að vernda sjálfan þig fyrir afleiðingum þess að vera í óheilbrigðu sambandi felur í sér að setja sterk og óhagganleg mörk, leita að stuðningi og forgangsraða eigin vellíðan.

Hér eru nokkur skref sem þú getur tekið:

Viðurkenndu að þú sért í óheilbrigðu skaðandi sambandi og að þú skiljir hver vandinn er. Þessi opnun á sjálfsvitund þinni er fyrsta skrefið í áttina að því að vernda sjálfan þig.

Settu og tjáðu skýr mörk til að vernda andlega og líkamlega vellíðan þína. Vertu ákveðinn í þeim mörkum og láttu það hafa afleiðingar ef brotið er á þeim.

Hafðu samband við vini, fjölskyldu eða meðferðaraðila til að fá stuðning. Það er mjög mikilvægt að viðhalda stuðningsnetinu þínu.

Settu sjálfumönnun og sjálfssamkennd í forgang og hættu að skamma þig og setja þig niður.

Farðu á námskeið eða einkatíma og lærðu sjálfsmildi og farðu svo út úr sambandi sem býður ekki upp á neitt gott fyrir líf þitt –  og mundu að það er nóg af fiskum í sjónum, þú þarft ekki að vera sú eða sá sem hirðir marhnútana cool

Þar til næst elskurnar,

xoxo

Ykkar Linda

Pin It on Pinterest

Share This