Stundum hefur mér fundist að þeir sem vilji sjá breytingu á lífi sínu haldi að það sé nóg að horfa á video, fara á helgarnámskeið eða hlusta á einn og einn fyrirlestur til að lífið stökkbreytist til hins betra, en raunin er svo sannarlega önnur.
Það er ekki spurning um það að með öllu þessu getur fólk fengið tímabundinn innblástur og hvatningu, og ég hvet þig alltaf til þess að fara á námskeið eða hlusta á góða fyrirlestra en varanlegar breytingar krefjast oft frekari stuðnings og ekki síst sjálfsaga.
Video og fyrirlestrar geta kveikt á eldmóði okkar og við finnum fyrir góðum jákvæðum tilfinningum og svo sannarlega tökum við oft fyrstu skrefin eftir að hafa horft á eða lært aðferðir sem ýta okkur af stað. Til að varanlegur árangur geti hins vegar orðið þurfum við flest á því að halda að hafa stuðningskerfi í kringum okkur og þar kemur lífsmarkþjálfi, jafningi eða stuðningshópur sér vel.
Til að sjá lífið breytast kostar það okkur yfirleitt breytta hegðun, hugsun og eða framkvæmd, skuldbindingu, þrautsegju og stöðuga æfingu sem því miður mörg okkar hafa ekki þolinmæði í og gefumst þá upp áður en við sjáum breytinguna verða að veruleika því það tekur tíma að breyta vana okkar og hugsuninni sem er yfirleitt lykillinn að öllu ásamt því að yfirstíga á köflum erfiðar áskoranir á leiðinni.
Þegar ég fæ nýja viðskiptavini þá fer fyrsti tíminn yfirleitt í það að hlusta á hvaðan fólk er að koma og skoða hvaða markkmið, gildi og áskoranir viðkomandi stendur frammi fyrir og útfrá þeim atriðum er farið af stað í ferli sem tekur yfirleitt langan tíma. Ég segi langan tíma því að á okkar tímum viljum við að allt gerist mjög hratt (skyndibitaleiðin) en við höfum haft jafnvel áratugi að mynda venjur, samskipti og framkvæmdir og það tekur tíma að breyta þeim.
Að læra að setja markmið á öllum sviðum lífsins kostar að þú þarft að opna augun og sjá skírt fyrir þér hvernig og hvenær þú vilt sjá markmið þín verða að veruleika. Ég tek það fram að markmið geta falist í mörgu eins og því td að hætta að reykja, stofna fyrirtæki, hætta að vera meðvirkur, bæta samskipti, koma sér frá ofbeldissamböndum og svo framvegis.
Nú þegar sýnin er skír þá er hægt að fara að setja áætlun sem hentar hverjum og einum. Oft eru hindranir og áskoranir á veginum sem tefja förina að markmiðinu en þá er lífsmarkþjálfinn þinn þarna til að ýta þér aftur á rétta braut og aðstoða þig við að hrinda frá öllu því sem tefur þig.
Í lífsmarkþjálfun munt þú þróa nýja hæfni eða bæta við þá sem þegar er til staðar og þú munt læra hluti eins og tímastjórnun, samskipti, leiðtogahæfni og streitustjórnun svo eitthvað sé nefnt.
Lífsmarkþjálfinn þinn mun halda þér ábyrgum og fara reglulega yfir framvindu þína, ræða það sem gengur vel og eins það sem gengur ekki jafn vel og stilla framvinduna samkvæmt því.
Það sem skiptir mjög miklu máli er speglun og endurgjöf, að fara yfir það sem þú hefur nú þegar lært og að styrkja jákvæðar breytingar á leiðinni ásamt því að bera kennsl á þau atriði og svæði sem bæta þarf.
Að fá persónulegan stuðning, speglun og hvatningu á leiðinni aðstoðar þig við að efla þrautsegjuna og þú færð að upplifa ánægjuna af hverjum litlum sigri sem fæst td með jákvæðum staðhæfingum, sjónrænum ímyndunum og hvatningaviðtölum frá þeim sem styðja þig.
Þú getur dvalið í trúnaði því að lífsmarkþjálfinn þinn er bundinn trúnaði við þig og öll þau verkefni sem gerð eru á milli tímanna eða í tímum eru aðeins á milli þín og hans. Að geta opnað á tilfinningar og vankanta sína í öryggi er heilandi í sjálfu sér og trúnaður er forsenda þess að hægt sé að kafa svo djúpt.
Í gegnum árin hef ég séð líf margra sem hafa verið í tímum hjá mér taka stökkbreytingum og ég hef séð sjálfstraust, sjálfsást og kjark verða til.
Ég hef séð manneskjur sem þora að horfast í augu við þau verkefni sem þau standa frammi fyrir í lífinu og ég hef séð þau finna lausnir sem eru umbreytandi fyrir þær.
Ég hef séð manneskjur takast á við sorg, erfiðar aðstæður í hjónaböndum, uppeldi, fjölskyldumálefnum og ná tökum á líðan sinni frá kvíða og öðrum vondum tilfinningum, og ég er þakklát fyrir að hafa fengið að vera hluti af þeim breytingum sem ég hef séð hjá aðilum sem virkilega leggja sig fram við að sigra áskoranir lífsins og innra sjálfsins.
Svo ef þú stendur á stað sem þarfnast lausnar þá skaltu ekki hika við að leita þér aðstoðar og að fá lífsmarkþjálfa í lið með þér við að skapa nýtt í þínu lífi.
Ég vona að þessi litli pistill hafi sagt þér aðeins til um það hvað lífsmarkþjálfun er, og ef ég get aðstoðað þig á þinni leið þá er ég bara einu maili eða símtali í burtu frá þér 🙂
Þar til næst elskurnar
xoxo
Ykkar Linda