Skip to main content

Það er sagt að við séum á aðal mótunarskeiði okkar frá fæðingu til 6 – 8 ára aldurs og að skilgreiningar okkar á okkur og umhverfi okkar verði til þar. Í raun getum við talað um að forritun eigi sér stað á þeim tíma og án nokkurrar gagnrýni tökum við inn á þessum árum þær skilgreiningar sem mótaðar eru þar af foreldrum okkar og samfélagi og erum að eiga við þær alla ævina ef ekkert er að gert í þeim málum.

Það eru nokkrar skilgreiningar til á því sem við er að eiga hjá þeim sem hafa alist upp í vanvirkum aðstæðum eða kærleiksleysi og ætla ég að telja upp nokkrar þeirra hér en grein þessi er byggð á upplýsingum frá Peg Streep sem hefur skrifað bækur um þessi málefni en þekktust þeirra er líklega Daughter Detox: Recovering from an Unloving Mother and Reclaiming Your Life and The Daughter Detox Question & Answer Book.

  • Skortur á sjálfstrausti.

Sá sem elst upp við ástleysi eða hafa alist upp í vanvirkum aðstæðum upplifa sig oft ekki eiga rétt á kærleika og athygli. Þau börn sem í slíkum aðstæðum lenda upplifa sig allt of oft vera týnda barnið sem ekki er hlustað á eða lítið talað við fyrir utan beinar skipanir og útásetningar. Alla ævina eru þessir einstaklingar að sanna fyrir heiminum og líklega sjálfum sér að þeir eigi tilverurétt og leita því samþykkis annarra fyrir því. En líklega er þó alltaf lítil rödd í höfði þeirra sem segir við þau “ hvað ert þú eiginlega að vilja upp á dekk“?

Oft upplifir sá sem kærleikann skorti að það sé engu að treysta og trúa í raun ekki á skilyrðislausa vináttu eða kærleika og eiga erfitt með náin samskipti og það að setja mörk inn í þau. Þessir einstaklingar þurfa stöðuglega að fá vitneskju um að þeir geti treyst á þig og að þú sért ekki að fara neitt, þeir trúa því vart að þú viljir vera vinur þeirra í raun og veru.

  • Eiga erfitt með að setja heilbrigð mörk í samskipti sín

Allt of oft reyna þessir aðilar að geðjast foreldrum sínum og þeim sem þeir eru í samskiptum við vegna tilfinningalegrar fjarveru foreldranna í æsku. Þeir hræðast oft tilfinningalega nánd og verða því oftar en ekki í hlutverki þess sem hafnar eða þess sem er of hræddur til að mynda tengsl (skuldbindingafóbía). Vegna þóknunarmynsturs sem þeir flækjast í vegna þarfar sinnar á því að geðjast þeim sem þeir eru í samskiptum við eiga þeir erfitt með að setja heilbrigð mörk sem byggja upp tilfinningaleg og stöðug samskipti. Oft finnst þessum sömu aðilum þeir verða að þjónustufólki fyrir aðra, geri of mikið fyrir þá og verða síðan mjög óánægðir með að fá ekki þakkir og aðdáun fyrir allt sem þeir gera. Einnig geta þessir aðilar verið mjög viðkvæmir og háðir td maka sínum og láta sjálfa sig víkja með tilheyrandi markaleysi.

  • Eiga erfitt með að meta sjálfa sig á réttan hátt

Oft var skortur á viðurkenningu og hrósi í uppeldinu hjá þessum aðilum en hins vegar fengu þeir nóg af skömmum og útásetningum, voru semsagt aldrei nægjanlega góðir. Það getur orðið til þess að þeir reyna sjaldan til fulls að ná í það sem þeir vilja heldur hopa frá því þar sem það gefur auðvitað augaleið að þeir eru ekki nægjanlega góðir til að eiga það skilið. Þetta viðhorf getur orðið svo rótgróið að það hamlar allri framför og því að sækja drauma sína.

Hræðslan við að lenda í óæskilegu sambandi verður hvatning til forðunar í stað þess að sækja fram og treysta á að sambönd og samskipti geti orðið í lagi. Á yfirborðinu lítur út fyrir að þessir aðilar vilji td finna sér maka en undir niðri er það alls ekki raunin því að forðunin er allsráðandi þar. Hræðslan við sársauka verður allri löngun yfirsterkari.

  • Viðkvæmni

Þeir sem fengu ekki kærleika í æsku gætu verið viðkvæmir fyrir gagnrýni og útásetningum og eiga erfitt með að beita réttum viðbrögðum á þeim stundum. Þessir aðilar eiga það til að ofhugsa hlutina og velta þeim fyrir sér í langan tíma og jafnvel minnsta athugasemd í vinnu eða einkalífi getur valdið þeim andvökunóttum.

  • Leita að mömmu eða pabba í samskiptum sínum

Mynstrin sem við myndum í æsku eru ótrúlega sterk og þó að okkur hafi ekki liðið vel í kærleiksleysinu þá leitum við uppi fólk sem sýnir okkur nákvæmlega það sama og við vorum alin upp við og það á reyndar við um okkur öll, líka þá sem fengu kærleika. En þar sem óheilbrigðið hefur mótað einstaklinginn þá því miður er stórhættulegt fyrir hann að festa sig við mynstur sem honum finnast svo þægilega kunnugleg (finnst eins og ég hafi alltaf þekkt hann/hana) þannig að ef þér finnst eins og þið hafið alltaf þekkst þá skaltu stoppa við og spyrja þig hvort að það geti verið að þú sért að kannast við gömul vond mynstur eða gömul góð mynstur í fari viðkomandi.

Munum bara elskurnar að fátt er svo rótgróið að vonlaust sé að breyta því, þannig að ef þú upplifir þig á þessum stöðum eða með þær skilgreiningar sem ég tala um hér þá er ekkert annað en að fá aðstoð við að skoða hvernig breyta má þeim til hins betra. Just go for it!

Og ef ég get aðstoðað þig á leiðinni þá er ég bara einni tímapöntun í burtu.

xoxo

Ykkar Linda

Pin It on Pinterest

Share This