Skip to main content

Ég uppgötvaði um daginn að líklega hef ég aldrei skrifað pistil sem fjallar eingöngu um jákvæðni eða máttinn sem felst í því að halda hugarfari sínu sem mest þar ásamt því að hlæja dátt oft á dag.

Það er yndislegt að vera jákvæður og skemmtilegur alla daga, en ég held að það sé nánast ómögulegt nema að við séum með fulla meðvitund öllum stundum sem við einfaldlega erum ekki og því læðast að okkur neikvæðu púkarnir sem sitja á öxl okkar og pikka þar og pota. Við höfum nú samt sem betur fer þann möguleika að auka meðvitundarstig okkar um nokkrar gráður dag hvern í þágu heilsu okkar og lífsgleði ef við bara ákveðum það.

Svo hvað er hægt að gera til að bæta meðvitund okkar?

Ég held að það sé varla til mjög nákvæm uppskrift þar um,  en sú uppskrift byggist líklega á dassi af hinu og þessu og allt eftir smekk hvers og eins og aðstæðum í lífinu.

Það er þó forvitnilegt að skoða hvað hinir ýmsu fræðimenn hafa að segja um hugtakið jákvæðni og nauðsyn þess að iðka hana.

Þessir fræðimenn virðast flestir vera sammála um að þeir sem eru hamingjusamir, lífsglaðir og jákvæðir verði síður veikir en þeir sem eru meira neikvæðir svona til að byrja með. Eins segja þeir að þegar jákvæðu einstaklingarnir verði veikir upplifa þeir einnig færri og mildari einkenni en hinir neikvæðu.

Og ef við byrjum á því að skoða hvað hægt er að gera til að halda sig sem mest á hinni jákvæðu hlið lífsins þá held ég að ég verði að byrja á því að tala um hláturinn og mátt hans. Þeir sem eru glaðir og hlæja reglulega lifa lengur og eru hraustari, þeir eiga betri samskipti við sjálfa sig og aðra og þeir taka betri ákvarðanir en þeir sem iðka sjaldan brosvöðvana.

Hláturinn er líklega einnig besta lækning heimsins þar sem hann er okkar náttúrulega prosak, hann linar kvalir okkar, lækkar blóðþrýsting, bætir svefn, virkjar ónæmiskerfið og framleiðir gleðiboðefnið endorfín. Þannig að það er nokkuð ljóst að heilinn okkar og líkami virkar betur þegar við hlæjum.

Við notum venjulega meira vinstra heilahvel okkar segja þeir en þegar við hlæjum notum við hægra heilahvel og við verðum svo miklu meira skapandi.

Hláturinn færir okkur einnig nær hvert öðru í samskiptum og hverjum finnst ekki yndislegt að fá bros frá náunganum og hláturinn er reyndar eina smitið sem ég er til í að smitast af þessa dagana. Hláturinn hefur einnig ómótstæðilegt aðdráttarafl og við sækjum meira í fólk sem fyllt er hlátri og gleðiorku.

Ynglingahormóna framleiðslan eykst 87% við hlátur segja þeir, ekki amalegt það. Einnig vilja þeir meina að við hlátur aukist framleiðsla á frumum sem eyða bakteríum, veirum og jafnvel krabbameinsfrumum og minnið okkar helst töluvert lengur. Ef allt þetta reynist satt þá ættum við að taka okkur tíma á hverjum degi bara til að hlæja okkur máttlaus ekki satt?

Það sem við getum síðan gert sjálf inn á harða diskinn okkar er að setja fókus okkar á þá hluti eða atburði í kringum okkur sem eru jákvæðir skemmtilegir og uppbyggilegir, ásamt því að þakka fyrir allt sem við höfum í lífi okkar nú þegar og veitir okkur gleði og hamingju.

Allt sem við veitum athygli vex og dafnar og ég veit að þegar ég hef td verið ófrísk þá sé ég allar ófrísku konurnar í kringum mig og eins þegar ég hef keypt mér nýjan bíl þá finnst mér hreinlega allir vera á þannig bílum í umhverfi mínu.

Heilinn finnur þannig fyrir mig í umhverfinu allt það sem ég beini athygli minni að – svo notum þann mátt okkur til heilla elskurnar.

Ég ákvað fyrir löngu síðan að horfa sjaldan á fréttir. Fyrir mig var það bara holl og góð ákvörðun því að í flestum tilfellum er þar fókusað á allt það sem miður fer í heiminum og fáar jákvæðar fréttir sem heyrast og sjást.

Ráðlegg reyndar flestum að prófa þetta og sjá hvort að jákvæðnin gagnvart lífinu og þjóðfélaginu eykst ekki eftir því sem lengra líður á milli áhorfs á fréttatímana.

Svona að lokum þá er það fátt sem gleður okkur meira eða gerir okkur jákvæðari en það að gefa af hjarta okkar til annarra svo verum dugleg við að gefa allt sem við getum til náunga okkar. Gefum þeim bros okkar og hlátur, hvatningu eða öxl til að gráta á. Hlustum á þá og veitum þeim aðstoð okkar umhyggju og kærleika, og dreifum þessu út um allt í kringum okkur, Guð einn veit að heimurinn þarfnast þess að við berum öll ábyrgð á náunga okkar.

En þar til næst elskurnar, glimmerkveðja, koss og faðmlag til ykkar allra – og ef þið þurfið á mér að halda við málefni lífs ykkar þá er ég einungis einni tímapöntun í burtu.

xoxo

Ykkar Linda

Pin It on Pinterest

Share This