Ég hef alltaf verið afar hrifin af þeirri speki sem Wayne heitinn Dyer boðaði og hef litið á hann sem eina af mínum aðal fyrirmyndum ásamt því að hjarta mitt finnur mikinn samhljóm með hans fræðum. Ég hef þó held ég aldrei skrifað pistil með viskukornunum hans fyrr.
Um daginn sat ég þó í flugvél og hlustaði á hann í rúma 2 klukkutíma á Youtube og ákvað þá að ég ætti að leyfa lesendum mínum að fá agnarlitla innsýn í fræði hans og því varð þessi pistill til.
Ég gæti líklega skrifað tugi pistla um viskukornin hans án þess að ná utan um helming þess sem hann gaf heiminum, en þessi pistill minn er máttlaus tilraun til að koma einhverjum af hans heimspekikornum á framfæri ásamt því að skrifa fyrir neðan mína eigin skýringu eða túlkun á þeim.
1. „ímyndunarafl þitt rétt eins og líkami þinn vex með æfingunni“ -W.D
Við ættum að æfa huga okkar ekki síður en líkama okkar og velja þær hugsanir og hugarmyndir sem þjóna vellíðan okkar og stækka þannig heillaríka veröld okkar í stað þess að sjá allt það slæma sem í framtíðinni býr og dvelja í ómöguleikavíddum, samsæriskenningum og óvild vegna ímyndaðra óvina og árása á okkur.
2. „Þú ættir að setja ætlun þína og athygli á það sem þú vilt sjá umpólörast eða breytast“ W.D
Allt sem við setjum fókusinn okkar á vex og dafnar. Ef við viljum ná árangri þá er stundum talað um að enginn verði meistari fyrr en eftir 10 þúsund æfingar og líklega er það ekki svo fjarri lagi. Við ættum að halda áfram og áfram að æfa okkur þar til við erum stödd þar sem við viljum vera í lífi okkar, og gefast aldrei upp – sigurinn er alltaf handan við hornið, við þurfum bara slatta af þolinmæði og þrautseigju í farteski okkar og treysta á að útkoman verði sú sem við viljum og eða okkur til heilla.
3. „Í raun, þegar þú loksins kynnist og skilur á náinn hátt heim anda þíns muntu glöggt sjá að öll vandamál eru blekkingar huga okkar vegna þess að við teljum okkur vera aðskilin frá uppruna okkar sem ég kalla Guð, en þú getur kallað hvaða nafni sem er“ W.D
Við höldum oft að við séum aðallega þessi dauðlegi líkami í stað þess að sjá að við erum andlegar verur sem erum að upplifa veraldlega reynslu hér á jörðinni. Allar okkar upplifanir eru forritun á einn eða annan hátt frá heimskerfunum okkar. Þær geta verið samfélagslegar, trúarlegar, menningarlegar og svo framvegis og við efumst sjaldan um að okkar eigin skilgreiningar séu réttar. Þannig munum við einnig vera þar til við förum að skoða með nýrri og víðari sýn heiminn í allri sinni dýrð. Þá loksins þurfum við ekki að aðgreina okkur frá hvert öðru heldur förum að virða og elska hvort annað og annast um. Væri það ekki dásamleg veröld?
4. „Kraftur ætlunar er kraftur kærleikans og þess að taka á móti og þiggja. Það krefst einskis af einum né neinum, það dæmir engan, og það hvetur aðra til að gefa sér frelsi til að vera þeir sjálfir“ W.D
Þegar við leyfum kærleikanum að ríkja í hjörtum okkar og tengjum okkur við hann ásamt því að treysta á að útkoman sé góð og gulltryggð þá segjum við bara já takk við lífið. Þá fyrst náum við líka slökum og höfum gaman af því að skoða hvað og hvert lífið mun fara með okkur. Þetta getur verið eins og nokkurskonar óvissuferð um ævintýralendur og það eina sem við þurfum að gera er að segja hvert við viljum stefna, og segja svo bara JÁ og verði svo eða amen á eftir efninu.
5. „Þú getur lært að fara langt útfyrir trúarkerfi þín og markmiðasetningu, á nýjan stað innra með þér: Stað þekkingarinnar. Það er þaðan sem kraftaverkin koma og verða til.“ W.D
Við höfum öll þessa dásamlegu rödd innra með okkur sem býr yfir allri þeirri þekkingu og visku sem við þörfnumst á leið okkar um lífið og þegar við förum að gefa henni gaum og hlusta náið á það sem hún hefur að segja okkur þá munum við rata réttu leiðirnar og taka réttar ákvarðanir fyrir okkar líf og hamingju. Þannig sköpum við kraftaverkin í lífi okkar og gerum það útfrá réttri þekkingu um okkur sjálf – og af heilu hjarta.
6. “Ef þú ert hreinskilinn, munt þú uppgötva að öll reynslan í lífi þínu var bráðnauðsynleg til að þú kæmist á næsta stað og einnig þann næsta allt fram að þessu augnabliki sem nú er” W.D.
Ég hef talað við fjöldann allan af fólki og spurt hvort að þau hefðu viljað vera án allrar þeirrar reynslu sem líf þeirra bauð uppá og hef alltaf fengið svipað svar: Nei vegna þess að reynslan hefur gert mig að þeirri manneskju sem ég er í dag. Og þannig er það hvort sem reynslan er átakanleg eða falleg þá er það hún sem gerir okkur að þeim persónum sem við erum í núinu. Reynslan hefur gefið okkur tækifæri á því að vaxa og þroskast okkur sjálfum og veröldinni til heilla (vonandi) í flestum tilfellum. Jafnvel hafa það verið sárustu staðirnir okkar sem hafa gefið okkur mestan skilning á mannlegri tilveru og losað okkur undan helsi dómhörkunnar. Svo þökkum fyrir reynsluna, bæðu þá góðu og slæmu og nýtum þroskann til að bæta heiminn í kringum okkur.
7.“Það er sérstakt frelsi sem er í boði fyrir þig ef þú ert tilbúinn að taka áhættuna sem fylgir því að öðlast það: En það er frelsið til að reika þangað sem þú vilt um landsvæði lífsins, til að taka einungis allar þínar eigin ákvarðanir.“ W.D
Það er þetta dásamlega valfrelsi sem við mennirnir höfum sem er svo dýrmætt og ekkert sem í raun sem er gefandi fyrir það að láta það eftir. Að kanna veröldina með augum barnsins sem myndar sér enga skoðun heldur er einungis áhorfandi. Sem tekur sínar eigin ákvarðanir byggðar á því frelsi sem í því felst að hafa ekki fyrirfram gefna skoðun er sú fallegasta gjöf sem manninum hefur verið gefin, og er einnig sú gjöf sem flestir vilja taka frá þér með fyrirfram gefnum viðhorfum samfélagsins. Verðum bara eins og börnin og sjáum dásemdir landsvæða lífsins sem upplifanir án skilgreininga en ekki sem staðreyndir sem við þurfum að hafa alla skoðun heimsins á. Njótum ferðalagsins með okkar eigin augum en ekki annarra.
8. „Breyting er erfið. Ef þú ert eins og flest fólk er þá muntu streitast á móti því að vinna það erfiða verk að útrýma þeim hugsunum sem eru að styðja við sjálfsskaðandi tilfinningar og hegðun þína.“. W.D
Þetta hef ég því miður allt of oft séð gerast. Við höldum í okkar tortímandi hugsun og hegðun frekar en að leggja á okkur þá vinnu sem felst í því að byggja okkur betri framtíð með því að eyða út öppum sem eru að eyðileggja fyrir okkur lífið á margan hátt. En vinnan sem felst í því að „forrita“ sig í rétta átt til heilla er tímafrekt og krefst meðvitundar og þrautsegju, en verðlaunin eru einnig mjög góð og allrar vinnunnar virði. Betra líf, hugsanir sem eru styðjandi, uppbyggilegar og jákvæðar gefa okkur betri framkvæmdir og betri útkomur og er það ekki það sem við erum í raun öll að leita eftir? En því miður er engin drive through lausn til í þessum efnum, en hinsvegar er fullt af verkfærum til ef þú ert tilbúinn í þessa uppbyggingu.
9. „Frjálsasta fólkið í heiminum eru þeir sem finna hinn innri frið í sjálfum sér: Þeir neita einfaldlega að láta að duttlungum annarra og hljóðlega eru þeir við stjórnvölinn á eigin lífi“ W.D.
Það er svo dásamlegt þegar við losnum við að láta aðrar mannverur hafa áhrif á framkvæmdir okkar og hugsun, á þeim stað liggur friðurinn okkar. Við þurfum bara alls ekki að elta hjörðina og höfum fullt leyfi til þess að lifa lífinu á þann hátt sem okkur þykir bestur, þetta er jú okkar leið, okkar líf og okkar uppskera sem í húfi er, og okkur var aldrei ætlað að taka uppskeru okkar úr garði náungans heldur okkar eigin. Svo vöndum okkur við að verða svolítið heyrnarlaus og fara bara okkar leið og tökum uppskeruna úr okkar eigin garði og sjáum bara til þess að hún hæfi því hver við erum innst inni – í okkar innsta kjarna og eðli.
10. “ Þegar þú vaknar til þinnar uppljómaða eðlis þá muntu byrja að meta fegurð í öllu sem þú sérð, snertir og upplifir“ W.D
Mér finnst við hæfi að þetta sé seinasta setningin hans Wayne Dyer að þessu sinni þar sem að það er einskonar vegvísir fyrir okkur að þegar við erum farin að sjá veröldina sem fallegan gefandi og ævintýraríkan stað. Stað þar sem við sjáum að allt er eitt með öllu og við öll sem byggjum þessa veröld erum samofin í keðju lífsins, það er staðurinn sem gefur okkur sýn á það sem gera þarf fyrir heiminn allan og við höldum af stað með kærleika okkar,von og umhyggju í vopnabúrinu okkar og vonumst svo til þess að sem flestir opni augu sín og verði með okkur á þeirri vegferð.
Þar til næst elskurnar verið góð við hvert annað og ég hvet ykkur eindregið til að kynna ykkur frekar speki Dr. Wayne Dyer sem gefið hefur út ógrynni af bókum og finna má á youtube allskonar fróðleik frá þessum stórkostlega manni sem heimurinn hefði þarfnast nú sem aldrei fyrr. Blessuð sé minning þessa mæta snillings.
Og eins og ætíð er ég einungis einni tímapöntun í burtu.
Ykkar Linda