Skip to main content

“Aðili sem ég elskaði einu sinni gaf mér kassa fullan af myrkri. – En það tók mig mörg ár að skilja að einnig myrkrið var gjöf til mín. – Mary Oliver

Ég geri mér grein fyrir því að ástand það sem nú er mun hafa og hefur haft áhrif á mörg heimili landsins og við erum líklega aðeins að sjá byrjunina á því sem koma skal. Mikil sorg er hjá mörgum og áhyggjur af afkomu eru miklar hjá stórum hópum því miður.

Þó virðist annað umræðuefni hafa stærra pláss á öldum ljósvakans og miklar umræður farið þar fram um skaðsemi þá sem börnin okkar búa við vegna Covid.

Talað er um að Covid ástandið sé að eyðileggja sálarheill ungu kynslóðarinnar þar sem samfélagslegar tengingar hafa haft takmarkanir og ýmsar breytingar átt sér stað í þjóðfélaginu og þar af leiðandi haft áhrif á æsku og vellíðan barna okkar.

Ég verð þó að segja að ég er töluvert langt frá því að vera sammála þeirri umræðu sem ég hef orðið vitni að, og hef ekki miklar áhyggjur af því þó að bæði börnin okkar og við hin fullorðnu þurfum að vera svolítið með sjálfum okkur í friði og ró í eitt ár eða svo.

Þetta er tímabil þar sem ekki er hægt að fá og gera allt sem okkur langar til að gera eða erum vön að getað gert og lífið gengur ekki sinn vanagang sem gerir okkur óróleg og ósátt við þær takmarkanir sem þríeykið okkar hefur sett okkur. Ég held þó að við litlu ofdekruðu vestrænu frekjurnar höfum bara gott af því að fá að byggja upp þrautseigjugenið okkar og börnin okkar hafa einnig gott af því að kynnast því að lífið er bara allskonar og ekki alltaf samkvæmt okkar óskuðu heimsmynd og því þurfum því að beita aðlögunarhæfni okkar og þrautseigju á tímum sem þessum.

Það er stutt síðan ég var ung og ég man vel eftir tímum austur á landi þegar ófært var svo dögum ef ekki vikum skipti (jafnvel ekki hægt að fá mjólk og brauð af Héraði í lengri tíma) án þess að það væri eitthvað verið að hafa áhyggjur af því hvernig okkur liði með það að kafa skaflana til að komast í skóla og jafnvel að þurfa að þvælast með snjóbílum á milli húsa ef hægt var þá yfirhöfuð að fara út úr húsi. Ég man líka eftir jólum þar sem ættingjarnir gátu ekki verið saman vegna veðursins og rafmagnsleysið sá oft til þess að jólin gátu ekki verið á réttum tíma vegna þess að ekki var hægt að setja steikina inn í ofninn. Við þessar aðstæður þurftum við bara að aðlaga okkur að náttúrunni og sætta okkur við þær aðstæður sem þar voru (ég held stundum að fólk haldi að það geti stjórnað náttúruöflunum eins og öllu öðru – en því fer þó fjarri).

Á mínum æskuárum þurftum við einnig að læra að dunda okkur án þess að við værum mötuð allan sólarhringinn og það vakti svo sannarlega ímyndunaraflið. Við fengum kennslu í því að njóta þess einfalda og vorum afar þakklát þegar vetri loksins lauk og við komumst leiðar okkar án erfiðis.

Við höfðum ekki netið, samfélagsmiðla, Netflix og snjallsímann, og sjónvarpsgláp var mjög takmarkað og varla hægt að segja að það væri til. Það voru ekki einu sinni til útvarpsstöðvar aðrar en Rás eitt þar sem lög unga fólksins var líklega það sem við lögðum á okkur að hlusta á hálftíma í hverri viku.

Bókasafnið var vinsælt hjá mér og gaf mér heilu heimana sem urðu raunverulegir í huga ungrar stúlku sem drakk í sig hverja bókina á fætur annarri og þess á milli teiknaði myndir af því sem sagan og ímyndunaraflið hafði búið til.

Ég held að flest okkar sem bjuggum við þessi líklega skertu lífsgæði að mati sumra í dag hafi gefið okkur mjög margt sem við höfum haft með okkur í farteskinu og hafi gefið okkur styrk á leið okkar í gegnum óhjákvæmilega öldudali og breytingar lífsins.

Eiginleikar þeir sem við þroskuðum með okkur voru td þrautseigja, sköpunarkraftur, friðsæld og að dvelja hið innra einn með sjálfum sér. Að meta það smáa í lífinu og að eiga gæða stundir með fjölskyldunni var það sem gaf lífinu gleði sína en sem að mínu mati hefur skort mjög svo á í langan tíma.

Þær minningar sem sitja í mér og mér þykir vænst um eru td eru útvarpsleikritin á fimmtudögum með fjölskyldunni, bakstur á kleinum lummum og fleiru, spariföt á sunnudögum, mamma með dönsku blöðin sín sem hún lánaði mér svo að ég gæti teiknað eftir þeim myndum sem mér fannst svo flottar. Að búa til föt á dúkkulísurnar, fara í fallin spýta teygjutvist og yfir voru daglega á dagskrá á þessum tíma (þegar veður leyfði)svo var það uppáhaldið mitt kubbafolkaleikurinn sem ég og frændsystkin mín bjuggum til með ímyndunarafli okkar þar sem við byggðum heilu bæina úr ónýtum bókum sem við teiknuðum inn í allskonar innréttingar og herbergi og fólkið sem bjó þar voru Legokubbar. Stóru hvítu kubbarnir voru konur, þeir svörtu voru karlar og litlu kubbarnir voru börnin og unglingarnir. Húsgögnin samanstóðu af forláta glerkúlum úr hinum ýmsu áttum og allskonar litlum dollum og trébútum sem gerðu húsin okkar að höllum.

Dorgað var fyrir fiski á bryggjunni, skautað á lóninu eða fótboltavellinum,lækir stíflaðir og búnar til sundlaugar fyrir Barbie dúkkurnar og bílabrautir búnar til á moldarhaugunum. Þetta eru dýrmætar minningar sem hefðu líklega ekki orðið til ef dagskrá okkar hefði verið full af skipulögðum æfingum og félagsstarfi.

Dagskrá flestra í dag er svo stútfull af öllu öðru en samveru fjölskyldunnar eða friði og innri ró að ég lít á þennan Covid tíma sem við lifum nú á sem gjöf til æskunnar en ekki helsi, en það er ég og mín skoðun og þú þarft alls ekki að vera sammála mér þar.

Við höfum satt best að segja öll bara gott af því að þurfa að láta eitthvað á móti okkur svona stundum og eins höfum við gott af því að finna leiðir og lausnir til aðlögunar við hinar ýmsu aðstæður sem lífið býður okkur uppá og það er gott að læra að njóta þess einfalda.

Í dag finnst mér eins stundum að foreldrar haldi að það sé best að forða börnum sínum frá alvöru lífsins að reyna því að pakka þeim inn í bómull þar sem ekkert erfitt má gerast og þar sem allt er eins og í ævintýri og engin vond norn er til staðar.

Erum við hinsvegar að gera börnunum okkar gott með því að verja þau fyrir lífinu? Mitt mat er að svo sé ekki því að hlutverk okkar er fyrst og fremst það að búa þau undir lífið og áskoranir þess sem ekki alltaf eru auðveldar eins og nú má sjá.

Ég las ummæli eftir einn af þeim sem lifðu af seinni heimstyrjöldina þar sem hann sagði að við ættum ekki að hafa áhyggjur af því þó að börnin okkar væru ekki í skóla í einhvern tíma, hann hefði verið án þess í fjögur ár, tekist á við margar hremmingar stríðsins á þeim tíma en sagði að það hefði nú ræst úr honum þrátt fyrir það að hafa misst þessi 4 ár úr skóla.

Í dag er varla að börn fái að vinna fyrr en þau eru orðin fullorðin og kynnast því ekki heimi hinna fullorðnu fyrr en allt of seint að mínu mati.

Ég var tólf ára farin að vinna með fullorðnu fólki í frystihúsi þar sem þær gömlu sem kenndu mér og gáfu sko ekkert eftir. Það var bara ætlast til þess að maður stæði sig og ekkert annað var í boði – og af því lærði ég mest. Eins var ég löngu fyrir þann tíma farin að passa börn og sjá um að þrífa heima hjá mér og hafði skyldur sem ég sé í dag að gerðu mér ekkert annað en gott.

Leyfum börnunum okkar að kynnast lífinu í allri sinni mynd, öllum gerðum þess bjöguðum eða góðum, og hættum að ofvernda þau og fylla dagskrá þeirra af einhverju svo að þeim þurfi ekki að leiðast eða að nýta hugarafl sitt. það er gjöf sem mun vaxa að verðgildi með tímanum og mun gefa börnum okkar styrkinn sem þau þarfnast og jafnvel tilganginn sem þeim oft skortir í dag og líklega gæti meira að segja losað þau undan tilvistarkreppum af ýmsum toga.

En hvað veit ég svosem annað en það sem hefur gagnast mér best í lífinu og það sem ég sé útundan mér í dag – ég vona þó að þessi orð mín veki upp hugsun um gagnsemi tíma þeirra sem nú eru en ekki einungis erfiðleikana sem þar er við að etja, því að eins og alltaf mun stytta upp og sólin skína að nýju og við reynslunni ríkari og reynslan er alltaf dýrmætasta gjöfin.

Og ef þú telur að ég geti aðstoðað þig á lífsins vegi er ég einungis einni tímapöntun í burtu eins og ætíð.

xoxo

ykkar Linda

Pin It on Pinterest

Share This